midlunadhandan.is

Um Miðlun


Hvað er miðlun?

Miðlun er hugtak yfir þau skilaboð eða hjálp sem berast að handan. Miðill er sá einstaklingur sem hefur sterka tengingu við handanheima og getur því miðlað upplýsingum þaðan, til dæmis til eftirlifandi ástvina.

Hversvegna fer fólk til miðils?

 Allskonar fólk kemur á miðilsfund og eru ýmsar ástæður fyrir því. Oft vill fólk leita fregna af látnum ástvinum sínum og styrkja trú sína á líf eftir dauðann með því að fá skilaboð að handan. Stundum stendur fólk á krossgötum í lífinu og vill fá ráðleggingar eða frekari innsýn varðandi það. Enn aðrir eru einfaldlega forvitin um andleg málefni.

Hvernig fer miðlun fram?

Miðlun fer þannig fram að þú mætir á fund með miðlinum á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Áður en þú mætir er miðillinn yfirleitt búinn að tengja sig við orkuna og opna þannig fyrir skilaboð og sýnir sem berast frá handanheimum. Stundum nota miðlar aukahluti til að ná betri tengingu við orkuna, það geta verið sem dæmi tarotspil, orkusteinar eða kristalkúlur svo eitthvað sé nefnt. Miðillinn þylur svo upp þær upplýsingar og sýnir sem koma í gegn.

Hvað eru leiðbeinendur?

Hver miðill er með teymi í handanheimum sem yfirleitt eru kallaðir leiðbeinendur. Eins og nafnið gefur til kynna er þeirra hlutverk að leiðbeina, hjálpa og vernda. Þetta teymi leiðbeinanda hjálpar miðlinum að hleypa í gegn þeim sem tengjast manneskjunni sem mætt er á miðilsfundinn. 

Hvað er hjálparmiðlun?

Hjálparmiðlun er miðlun þar sem helsta áherslan er á heilsu viðkomandi. Í þeim tímum eru því sterkari tengingar við þau sem í sinni jarðvist unnu við heilsu og heilbrigði fólks. Þessi tegund af miðlun er líka stundum kölluð samtalsheilun þar sem miðillinn getur miðlað upplýsingum og heilandi orku sem veitir fólki ráðgjöf og stuðning varðandi heilsutengd málefni.

Hvað er heilun?

Heilun er þegar sérstakri heilunarorku að handan er beitt til að hjálpa líkama og sál. Oft er heilunarorka einnig notuð til að koma orkustöðvum líkamans í betra jafnvægi. Miðlar sem bjóða upp á heilun eru yfirleitt með sérstakt teymi af leiðbeinendum í handanheimum sem sjá um heilunina. Oftar en ekki störfuðu þau við heilsutengd málefni í sinni jarðvist og vilja einmitt vegna þessa nota þekkingu sína til að hjálpa fólki með heilsufarsleg vandamál.

Hvað er bænabók?

Miðlar eru oft með svokallaða bænabók en það er bók sem miðillinn biður sérstaklega fyrir og sendir þeim sem skráðir eru í bókina hjálp og styrk. Slíkt er kallað fyrirbæn þar sem er verið að biðja sérstaklega fyrir ákveðnum einstaklingum. Fólk getur óskað eftir fyrirbæn ef einhver sem það þekkir eða þykir vænt um á við erfiðleika að stríða. Miðillinn skrifar þá í bókina sína nafn og heimilisfang (eða staðsetningu sé viðkomandi til dæmis á spítala), biður fyrir viðkomandi og sendir styrk og orku á heimilisfangið eða staðsetninguna.

Til að skrá þig eða ástvin í bænabók okkar smelltu hér